Fjarnám í beinni

Framvegis býður upp á fjarnám í beinni í ýmsu námi og námskeiðum. Þannig er fjarneminn þátttakandi í kennslustundinni/námskeiðinu á rauntíma rétt eins og sá sem er á staðnum. 

Hvaða búnað þarf ég til að taka þátt: Nýleg tölva, góð nettenging, heyrnartól með hljóðnema (hljóðnemi er innbyggður í flestar fartölvur), vefmyndavél (á aðeins við ef þú vilt vera sýnileg/-ur í stofunni). Ekki er hægt að tengjast fjarkennslunni með stýrikerfi eldra en 2007 (t.d Windows XP, Windows vista). Framvegis nýtir ýmsar lausnir við fjarkennslu, svo sem Teams, Zoom og Google Classroom allt eftir því hvað hentar best viðfangsefninu og þeim sem námið stunda.

Áður en nám eða námskeið hefst fær þátttakandi sendan tölvupóst með krækju á fjarfund þar sem kennsla fer fram. Því er mjög mikilvægt að þátttakendur og námsmenn skrái rétt netfang.

Hvað er vendikennsla/spegluð kennsla?

Vendikennsla/spegluð kennsla er nýstárleg kennsluaðferð sem er að ryðja sér til rúms á Íslandi, meðal annars hjá Framvegis – miðstöð símenntunar. Með vendikennslu/speglaðri kennslu er hefðbundinni kennslu snúið við. Kynningar og fyrirlestrar eru vistaðir á internetinu og gerðir aðgengilegir nemendum í viðkomandi námi. Nemendur geta horft og hlustað á kynningarnar, hvar og hvenær sem er – eins oft og þeim sýnist.

Þeir geta jafnframt sent kennurum (eða samnemendum sínum) spurningar um efnið og fengið svör á netinu. Þá eru nemendur hvattir til að nota netið til að finna heppilegt kennsluefni.

Vendikennsla/spegluð kennsla breytir hefðbundnu fyrirkomulagi á kennslustundum töluvert. Í stað þess að nemendur hlýði á kynningar í kennslustundum þá vinna þeir þar verkefnin, oftast saman í hóp, og kennarar aðstoða eftir þörfum við úrlausnir. Kennslustundirnar verða því lifandi ferli sem virkjar nemendur með skemmtilegum hætti. Kennsluaðferðin krefst þess að nemendur mæti undirbúnir til leiks til að vinnan í kennslustundum nýtist þeim sem skyldi.