Styrkleikar samkvæmt jákvæðri sálfræði. Flokkunarkerfi VIA

Styrkleikar Framvegis

Unnið upp úr Styrkleikakort - Strength Cards frá VIA Institude on Character.

 Nánari útlistun á bæði dyggðaflokkunum sex og styrkleikunum 24: 

Viska 

Þekking sem við höfum þurft að hafa fyrir því að öðlast og notum til góðs, ekki það sama og greindarvísitala (IQ). Styrkleikarnir sem heyra undir visku eru:

 • Sköpunargáfa – að finna nýstárlegar og skilvirkar leiðir til að hugsa og framkvæma; felur í sér listræn afrek en einskorðast ekki við þau
 • Forvitni – að hafa áhuga á núverandi upplifun, upplifunarinnar vegna; að finnast öll viðfangsefni og umræður heillandi; að kanna og upplifa
 • Dómgreind – að hugsa hlutina til enda og velta fyrir sér öllum hliðum. Að hrapa ekki að ályktunum; að vera fær um að skipta um skoðun ef fram koma ný sönnunargögn; að meta öll rök á sanngjarnan hátt
 • Lærdómsást – að ná tökum á nýrri færni, viðfangsefni og þekkingu, hvort sem er á eigin vegum eða í gegnum nám; tengist styrkleikanum forvitni en gengur lengra í að lýsa tilhneigingu til að bæta kerfisbundið við þekkingu sína
 • Yfirsýn – að geta gefið örðum viturleg ráð; að hafa tök á að sjá heiminn á þann hátt sem er skiljanlegur fyrir þig og aðra

Kjarkur

Hæfnin til að yfirstíga ótta. Þrjár tegundir; líkamlegur, andlegur og sálfræðilegur. Ekki eitt magnað atvik. Felur í sér hugsun, tilfinningar, áhugahvöt og ákvarðanir. Leiðin til að öðlast kjark er í gegnum styrkleikana hugrekki, heiðarleika, þrautseigju og lífsorku:

 • Kjarkur – að hörfa ekki frá ógnunum, áskorunum, erfiðleikum eða sársauka; að standa fyrir því sem er rétt þó það mæti andstöðu; að fara eftir sannfæringu sinni þó hún sé óvinsæl; innifelur líkamlegt hugrekki en er ekki takmarkað við það
 • Heiðarleiki – að segja satt og í víðara samhengi, að koma fram á ósvikinn og einlægan hátt; að vera ekki að þykjast vera eitthvað annað ern þú ert; að taka ábyrgð á eigin tilfinningum og gjörðum
 • Þrautseigja – að ljúka við það sem byrjað er á; að þrauka þótt á móti blási; að koma hlutum frá sér; að hafa ánægju af því að ljúka við verkefni
 • Lífsorka – að nálgast lífið af eldmóði og orku; að gera hlutina heilshugar; að lifa lífinu sem ævintýri; upplifa sig lifandi og virk

Mannúð

Er að bæta velferð annarra með styrkleikum sem fela í sér tengsl, óeigingirni eða hegðun sem kemur samfélaginu vel. Þetta felur í sér að gera eitthvað af örlæti, góðmennsku eða góðvild sem hefur jákvæð áhrif á þann sem tekur eftir þeim. Styrkleikarnir sem heyra undir mannúð eru:

 • Góðvild – að gera örðum greiða; að gera góðverk; hjálpa og hlú að öðrum
 • Ást – að kunna að meta náin sambönd við aðra, sérstaklega þau sem endurgjalda umhyggju okkar; að vera náin fólki
 • Félagsgreind – að vera vör um hvatir og tilfinningar sínar og annarra; að vita hvernig má passa inn í mismunandi félagslegar aðstæður; að skilja hvað knýr fólk áfram

Réttlæti

Það sem gerir lífið sanngjarnt. Þetta merkir hugmyndirnar um réttlæti sem felur í sér að þeir sem leggja til fái umbun. Hugmyndin um jafnrétti eða þörf fyrir jafnrétti er hér ríkjandi. Þetta er ópersónulegt og gert fyrir sanngirnissakir. Þetta felur í sér hlutleysi. Styrkleikarnir sem heyra undir réttlæti þjóna almannahag og eru:

 • Sanngirni – að koma fram við alla í samræmi við hugmyndir um sanngirni og réttlæti; að láta tilfinningar ekki hafa áhrif á ákvarðanir sem varða aðra; að gefa öllum jöfn tækifæri
 • Leiðtogahæfni – að hvetja hóp sem þú tilheyrir til að koma hlutunum í verk og að viðhalda á sama tíma góðum samskiptum innan hópsins; að skipuleggja hópastarf og sjá til þess að því sé komið í verk
 • Teymisvinna – að vinna vel sem hluti af hóp eða liði; að sýna hópnum tryggð; að standa skil á sínum hluta

Sjálfsagi

„Allt er best í hófi“. Stjórn fram yfir ofgnótt. Hvers konar sjálfstjórn sem leiðir til árangurs. Þetta er meðvituð hæfni til að fylgjast með og stjórna tilfinningum sínum, hvötum og hegðun án utanaðkomandi aðstoðar, ef þetta tekst ekki getur það leitt til bæði persónulegra og samfélagslegra vandamála. Þetta getur verið angi af því að neita sér um eitthvað sem til lengri tíma leiðir til góðrar uppskeru fyrir bæði viðkomandi og aðra. Styrkleikarnir sem sjálfsaga eru:

 • Fyrirgefning – að fyrirgefa öðrum misgjörðir þeirra; að sætta sig við vankanta annarra, að gefa fólki annað tækifæri; að vera ekki hefnigjörn
 • Auðmýkt – að láta verkin tala fyrir sig sjálf, að álíta sig ekki merkilegri en aðra
 • Varfærni – að fara varlega við ákvarðanatöku; taka ekki óþarfa áhættu; segja ekki né gera hluti sem gætu valdið eftirsjá
 • Sjálfsstjórn – að hafa stjórn á líðan sinni og hegðun; að hafa sjálfsaga, að stjórna löngunum sínum og tilfinningum

Yfirskilvitleiki 

Snýst um að tengja við eitthvað æðra að merkingu og tilgangi en bara við okkur sjálf. Hvað gefur lífinu tilgang? Eins og Viktor Frankl sagði: „að vera manneskja bendir til einhvers annars en okkur sjálfra“. Þetta minnir okkur á að við erum agnarsmá en þó mikilvæg. Styrkleikarnir sem tilheyra yfirskilvitleika eru:

 • Að meta fegurð og gæði – að taka eftir og meta fegurð, afburðagæði og/eða frábæran árangur á ýmsum sviðum lífsins frá náttúru, listum stærðfræði og vísindum til hversdagslegra upplifana.
 • Þakklæti – að vera meðvituð um og þakklát fyrir þá góðu hluti sem gerast; að gefa sér tíma til að tjá þakklæti
 • Von – að vænta þess besta í framtíðinni og vinna að því að ná því. Að trúa því að góð framtíð sé eitthvað sem geti ræst.
 • Húmor – að finnast gaman að hlæja og stríða, að kalla fram bros hjá öðrum, að sjá björtu hliðarnar, grínast (segir ekki endilega brandara)
 • Andleg vitund – að hafa heildstæða trú á æðri tilgangi og merkingu í alheiminum; að vita hvar þú passar inn í stóra samhengið; að hafa skoðun á tilgangi lífsins sem mótar framkomu og hughreystir

Unnið m.a. upp úr Syrkelikakort - Strength Cards frá VIA Institude on Character.

 Styrkleikapróf

Hér er krækja á styrkleikapróf sem byggist á flokkun jákvæðar sálfræði VIA Character Strengths Survey & Character Reports | VIA Institute hægt er að velja íslensku og taka þá prófið á því ylhýra. 

Einnig er hægt að skoða styrkleikana hvern fyrir sig með því að velja Characer Strengths á valstikunni sem er ofarlega