Persónuverndarstefna

Framvegis miðstöð símenntunar leggur áherslu á að tryggja að öll meðferð persónuupplýsinga sé í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Markmið persónuverndarstefnunnar er að auðvelda einstaklingum að átta sig á hvaða upplýsingar miðstöðin skráir, hvernig þær eru notaðar og hvað er gert við þær. Persónuverndarstefnu Framvegis er þannig ætlað að stuðla að gagnkvæmum skilningi allra sem koma að miðstöðinni, það er starfsmanna, verktaka, stjórnarmeðlima og þeirra sem sækja þjónustu miðstöðvarinnar.

Persónuverndarstefna þessi er sett í samræmi við ákvæði laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerð ESB nr. 2016/679 (GDPR) um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga. Stefnan gildir um þjónustu sem veitt er af Framvegis og/eða af aðilum sem starfa á vegum miðstöðvarinnar.

Hvaða gögnum er safnað

Persónugreinanlegar upplýsingar eru gögn sem nota má til að bera kennsl á tiltekinn einstakling. Framvegis safnar eftirfarandi persónugreinanlegum upplýsingum um einstaklinga sem sækja þjónustu miðstöðvarinnar:

  • Nafn
  • Kennitala
  • Tölvupóstfang
  • Heimilisfang
  • Sími
  • Greiðsluupplýsingar

Þegar einstaklingar sækja þjónustu sem fjármögnuð er að hluta úr Fræðslusjóði líkt og námsleiðir framhaldsfræðslunnar vottaðar af Menntamálastofnun, náms- og starfsráðgjöf og raunfærnimat er einnig óskað eftir upplýsingum um kyn, menntunarstig, stöðu á vinnumarkaði og stéttarfélag.

Hvaðan koma upplýsingarnar

Upplýsingar koma frá einstaklingum þegar þeir skrá sig í nám hjá Framvegis í gegnum vefinn www.framvegis.is. Allar upplýsingar um söfnun og vistun upplýsinga sem Framvegis safnar f.h. Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) eru vistaðar í INNU sem FA hefur aðgang að. Einstaklingum er gerð grein fyrir því hvaða upplýsingum er safnað og hvernig vistun gagna fer fram og bent á að snúa sér til FA frae@frae.is með fyrirspurnir og beiðnir um aðgang að gögnum. Einnig berast upplýsingar frá stofnunum og fyrirtækjum um þátttöku einstaklinga sem sækja þjónustu á vegum Framvegis.

Vefkökur (e. cookies) eru litlar textaskrár sem eru vistaðar á tölvu notenda eða öðrum snjalltækjum sem notuð eru þegar vefsíða er heimsótt í fyrsta sinn. Vefkökurnar gera það að verkum að vefsíðan man eftir einstaklingi og hvernig síðan er notuð þegar hún er heimsótt í hvert skipti. Þær geyma upplýsingar um stillingar, aðgerðir og óskir notanda t.d. í tengslum við innskráningu, tölfræði heimsókna, auðkenni innskráðra o.fl. einnig koma þær í veg fyrir árasir tölvuþrjóta. Vefkökur innihalda ekki persónuupplýsingar á borð við nafn, netfang, símanúmer eða kennitölu.

Framvegis notar vefkökur til að bæta notendaviðmót á heimasíðu sinni. Vefkökur hjálpa okkur við að bæta vefsíðuna, svo hún virki á þann hátt sem notendur búast við, til að gera hana öruggari og til að gera markaðssetningu okkar markvissari.

Til hvers eru gögnin nýtt

  • Framvegis notar persónugreinanlegar upplýsingar til að senda fréttir, tilkynningar og upplýsingar um væntanlega viðburði, námskeið eða vekja athygli á þjónustu hvort sem er með tölvupósti eða hefðbundnum pósti.
  • Upplýsingar eru vistaðar um óákveðinn tíma í skráningarkerfi Framvegis. Tilgangurinn er annars vegar að geta staðfest námskeiðssókn einstaklinga með sérstöku viðurkenningarskjali, óski þeir eftir, en einnig í tölfræðilegum tilgangi til að mæla þróun í starfi Framvegis.
  • Tölfræði um starfsemi Framvegis er birt í ársskýrslu miðstöðvarinnar og  kynningarefni miðstöðvarinnar.

Gögn og upplýsingar sem Framvegis safnar og geymir eru einungis notuð til að hægt sé að sinna hlutverki miðstöðvarinnar. Öll gögn eru varin þannig að einungis þeir sem heimild hafa til að vinna með þau hafa aðgang að þeim eins og skilgreint er í gæðahandbók. Gögn eru hýst bæði á skýjalausnum og hjá innlendum hýsingaraðilum. Öll gögn eru afrituð með reglulbundnum hætti og afrit geymd á dulkóðuðu sniði og eru einungis notuð ef grunngögn tapast.

Réttur einstaklinga

Framvegis veitir einstaklingum sem málið varðar og sem eftir því óska, aðgang að upplýsingum um þau persónugögn sem hann vistar og/eða vinnur með um einstaklinginn. Framvegis virðir framangreind réttindi einstaklinga samkvæmt persónuverndarlögum.

Öryggisráðstafanir (upplýsingaöryggi)

Framvegis leggur áherslu á trúnað og öryggi og er ætlast til að starfsmenn og verktakar fari með allar upplýsingar um einstaklinga sem trúnaðarmál og í samræmi við ákvæði laga og reglna um persónuvernd. Starfsmenn, verktakar og framkvæmdastjóri undirrita trúnaðaryfirlýsingu og í tilteknum verkefnum, eins og náms- og starfsráðgjöf, gilda siðareglur viðkomandi starfsstéttar. Trúnaðaryfirlýsing gildir áfram þó viðkomandi láti af störfum hjá miðstöðinni.

Samskipti vegna persónuverndarmála

Skipaður hefur verið persónuverndarfulltrúi sem m.a. tekur við beiðnum eða ábendingum varðandi persónuverndarmál. Hægt er að hafa samband við persónuverndarfulltrúa Framvegis í síma 581-1900.