Námskeiðið miðar að því að efla menningarhæfni sjúkraliða og styrkja getu þeirra til að veita faglega og virðingarfulla þjónustu við fjölbreyttan hóp skjólstæðinga. Í upphafi er farið yfir grundvallarhugtök, sögulegt samhengi og skilgreiningar menningarhæfni. Við ræðum hindranir sem geta komið upp og ávinninginn sem felst í menningarhæfri nálgun – bæði fyrir heilbrigðisstarfsfólk og skjólstæðinga. Kynnt eru tíu „boðorð menningarhæfni“ sem styðja við fagmennsku og samskipti.
Lögð er áhersla á samskiptareglur í mismunandi menningarheimum, mikilvægi túlkaþjónustu og notkun hjálpartækja sem stuðla að betri samskiptum við þá sem ekki tala íslensku. Þá skoðum við viðkvæma hópa, svo sem fólk í neyslu og flóttafólk, og hvernig nálgast má slíka hópa af virðingu og innsæi.
Hluti námskeiðsins er vinnustofa þar sem tekin eru raunveruleg dæmi – bæði frá leiðbeinanda og þátttakendum sjálfum – sem gefur tækifæri til að spegla eigin reynslu og læra hver af öðrum. Að lokum framkvæma þátttakendur sjálfsmat á eigin menningarhæfni og fá verkfæri til að efla sig enn frekar í daglegu starfi.
Leiðbeinandi: Áslaug Arnoldsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Námsmat: 100% mætingarskylda og virk þátttaka á námskeiðinu.
Punktar: 6 punktar
Staðkennt: 16. október
Fjarkennt: 23. okróber