Lengri námsleiðir

Lengri námsleiðir Framvegis eru ætlaðar fólki sem er 18 ára eða eldra og hefur ekki útskrifast úr framhaldsskóla, en það er markhópur í framhaldsfræðslunnar. Námsleiðirnar eru vottaðar af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og í flestum tilfellum er heimild til að meta námið til eininga í framhaldsskóla. Nám hjá okkur getur því verið góð leið fyrir þá sem vilja koma sér af stað í frekara nám. Einnig fyrir þá sem vilja styrkja stöðu sína á vinnumarkaði eða persónulega.

Námsleiðir kenndar í samvinnu við Promennt:

Skrifstofuskólinn

Skrifstofuskólinn er fyrir fólk sem vill skapa sér sterkari stöðu á vinnumarkaði með aukinni menntun eða er á leiðinni út á vinnumarkaðinn að nýju eftir hlé. Tilgangur námsleiðarinnar er að auka sjálfstraust námsmanna til að takast á við almenn skrifstofustörf og stuðla að jákvæðu viðhorfi þeirra til áframhaldandi náms. Í náminu er lögð áhersla á að námsmenn læri að læra, efli sjálfstraust sitt og lífsleikni. Skrifstofuskólinn er námsbraut kennd í samstarfi við Promennt og er styrkt af Fræðslusjóði. Hann er ætlaður fólki í markhópi framhaldsfræðslunnar en það eru einstaklingar sem eru tvítugir eða eldri og hafa stutta formlega skólagöngu að baki. Heimild er til að meta námið til allt að 18 eininga í framhaldsskóla

Lengd náms: 240 kennslustundir eða 160 klukkustundir.

Verð: 54.000 kr.

Einingar: Heimild er til að meta námið til allt að 18 eininga í framhaldsskóla.

Upplýsingar um dagsetningar og skráningu má finna hér.  

 

Tölvuumsjón

Námskráin Tölvuumsjón lýsir námi á 2.þrepi hæfniramma um íslenska menntun og skiptist í 12 námsþætti.

Tilgangur námsins er að efla hæfni þeirra sem vinna við, eða hafa hug á að vinna við, tölvuviðgerðir og að þjónusta tölvukerfi. Markmið námsins er að námsmenn öðlist grunnhæfni á sviði tölvuumsjónar. Í náminu er áhersla lögð á að námsmenn öðlist almenna þekkingu og leikni í að sinna viðgerðum, uppsetningu og uppfærslum á tölvum, hugbúnaði og kerfum. Þeir vinna með vélbúnað, stýrikerfi og hugbúnað ásamt því að greina og gera við algengar bilanir og leysa tæknivandamál. 

Að loknu námi í Tölvuumsjón geta námsmenn bætt við sig hæfni á þessu sviði, til dæmis í kerfisstjórn eða tækniþjónustu.

Lengd náms: 334 klukkustundir (196 með leiðbeinanda og 148 án leiðbeinanda)

Verð: 72.000 kr.

Einingar: Heimild er til að meta námið til allt að 17 eininga í framhaldsskóla.

Upplýsingar um dagsetningar og skráningu má finna hér

 

Sölu- markaðs- og rekstrarnám

Sölu- markaðs- og rekstrarnám (SRM nám) er ætlað fólki í markhópi framhaldsfræðslunnar sem vinnur við sölustörf eða hefur hug á að stofna til eigin reksturs. Tilgangur námsins er að veita námsmönnum tækifæri til að auka hæfni sína og bæta við sig lykilfærni á sviði sölu,- markaðs-, og rekstrarmála. Námsbrautin er unnin í samvinnu við Promennt og er styrkt af Fræðslusjóði.

Lengd náms: 410 kennslustundir eða 273 klukkustundir.

Verð: 93.000 kr.

Einingar: Heimild er til að meta námið til allt að 30 eininga í framhaldsskóla.

Skráning stendur yfir hér


Tækniþjónusta - í samstarfi við NTV

Námsleiðin Tækniþjónusta kennd er í samstarfi við NTV. Námið byggir á hagnýtum viðfangsefnum tengdum tækniþjónustu við viðskiptavini og samstarfsfólk. Í náminu er áhersla lögð á að byggja upp grunnþekkingu á vélbúnaði, stýrikerfum, hugbúnaði og netkerfum og þjálfa námsmenn í að veita almenna þjónustu við uppsetningu og tengingar, greina einfaldar bilanir og bregðast við þeim. Markmið námsins er að starfsfólk í tækniþjónustu hafi þá hæfni sem þarf til að sinna skilgreindum verkefnum starfsins samkvæmt starfaprófíl. Námið samanstendur af 8 námsþáttum sem eru verkferlar i tækniþjónustu, samskipti við viðskiptavini, tæknibúnaður, netkefni, greining tæknilegra vandamála og bilana, ráðgjöf og leiðsögn, tæknilega aðstoð/viðgerðir og að lokum fara nemendur í þjálfun á vinnustað. 

Lengd náms: 210 kennslustundir eða 140 klukkustundir.

Verð: 54.000 kr.

Einingar: Heimild er til að meta námið til allt að 7 eininga í framhaldsskóla.

Skráning stendur yfir hér.


Stökkpallur

Á Stökkpalli er áhersla lögð á að byggja upp samskiptafærni, efla sjálfstraust og þjálfa námsmenn til atvinnuþátttöku í mismunandi starfsumhverfi og til áframhaldandi náms. Námsmenn vinna markvisst að eigin færniuppbyggingu með markmiðasetningu, þjálfun í samskiptum og tjáningu, auknu fjármálalæsi, skipulögðum vinnubrögðum við upplýsingaleit og aukinni hæfni til að taka þátt í námi og starfi. Markmið námsins er að auka starfshæfni námsmanna og gera þá meðvitaðri um eigin styrkleika. Námið er ætlað þeim sem horfið hafa frá námi og/eða eru án atvinnu. Tilgangur þess er að virkja þá til þátttöku í atvinnulífi eða til áframhaldandi náms, auðvelda þeim að takast á við verkefni sem þeim eru falin á vinnustað eða hjá fræðsluaðila og stuðla þannig að jákvæðu viðhorfi til vinnumarkaðar og áframhaldandi náms. Námskráin skiptist í 4 námsþætti, markmiðasetning og sjálfsefling, samskipti og samtarf, vinnuumhverfi og vinnustaðir og að lokum vettvangsnám á vinnustað.

Lengd náms: 270 kennslustundir eða 180 klukkustundir.

Verð: 61.000 kr. 

Einingar: Heimild er til að meta námið til allt að 10 eininga í framhaldsskóla.

Skráning fer fram með því að senda tölvupóst


Fagnám í umönnun fatlaðra (Starfsnám stuðningsfulltrúa) - í samstarfi við Fræðslusetrið Starfsmennt

Fagnám í umönnun fatlaðra lýsir námi á 2. þrepi hæfniramma um íslenskt menntakerfi, skipt í 12 námsþætti. Námskráin Fagnám í umönnun fatlaðra lýsir námi á 2. þrepi sem skiptist í 12 námsþætti. Markmið námsins er að auka færni og þekkingu námsmanna á aðstæðum og þörfum fatlaðs fólks til að efla lífsgæði þeirra og virkni. Í náminu er lögð áhersla á sjálfseflingu, lífsgæði og réttindi fatlaðs fólks með því að veita þeim viðeigandi þjónustu. Námið er ætlað þeim sem starfa eða vilja starfa við umönnun fatlaðra en í því felst að vinna við þjónustu á heimilum og stofnunum fyrir fatlaða. Það getur einnig hentað þeim sem starfa í þjónustu við aldraða og sjúka og fyrir þá sem vinna með börnum og unglingum í vanda. Breyttar áherslur í starfi kalla á aukna fagmennsku og markvissa starfsþróun þannig að starfsfólk geti veitt framsækna og metnaðarfulla þjónustu.
Námið var upphaflega þróað af Fræðslusetrinu Starfsmennt árið 2002 í samstarfi við fjölda hagsmunaaðila en það hefur tekið nokkrum breytingum í samræmi við breyttar kröfur og nýjungar í þjónustunni.

Lengd náms: 324 klukkustundir.

Einingar: Heimild er til að meta námið til allt að 16 eininga í framhaldsskóla.

Starfsmennt veitir nánari upplýsingar um starfsnám stuðningsfulltrúa www.smennt.is.