Lengri námsleiðir Framvegis eru ætlaðar fólki sem er 20 ára eða eldra og hefur ekki útskrifast úr framhaldsskóla, en það er markhópur í framhaldsfræðslunnar. Námsleiðirnar eru vottaðar af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og í flestum tilfellum er heimild til að meta námið til eininga í framhaldsskóla. Nám hjá okkur getur því verið góð leið fyrir þá sem vilja koma sér af stað í frekara nám. Einnig fyrir þá sem vilja styrkja stöðu sína á vinnumarkaði eða persónulega.

Námskeið kennd í samvinnu við Promennt

Skrifstofuskólinn

Skrifstofuskólinn er fyrir fólk sem vill skapa sér sterkari stöðu á vinnumarkaði með aukinni menntun eða er á leiðinni út á vinnumarkaðinn að nýju eftir hlé. Tilgangur námsleiðarinnar er að auka sjálfstraust námsmanna til að takast á við almenn skrifstofustörf og stuðla að jákvæðu viðhorfi þeirra til áframhaldandi náms. Í náminu er lögð áhersla á að námsmenn læri að læra, efli sjálfstraust sitt og lífsleikni. Skrifstofuskólinn er námsbraut kennd í samstarfi við Promennt og er styrkt af Fræðslusjóði. Hann er ætlaður fólki í markhópi framhaldsfræðslunnar en það eru einstaklingar sem eru tvítugir eða eldri og hafa stutta formlega skólagöngu að baki. Heimild er til að meta námið til allt að 18 eininga í framhaldsskóla

Lengd náms: 240 kennslustundir eða 160 klukkustundir.

Verð: 52.000 kr.

Einingar: Heimild er til að meta námið til allt að 18 eininga í framhaldsskóla.

Næsta námskeið fer af stað 5. febrúar 2018. Skráning fer fram hér.

 

Skrifstofunám

Námið er ætlað fólki sem er í markhópnum okkar, vinnur almenn skrifstofustörf eða hefur hug á því. Markmiðið námsins er að veita fólki á vinnumarkaði færni til að starfa við sem fjölbreyttust störf á skrifstofu og verða fjölhæfur og góður starfskraftur. Lögð er áhersla á að námsmenn læri að læra, efli sjálfstraust sitt og starfsfærni og fái verkfæri og verkferla sem nýtist þeim í starfi. Að námi loknu eiga námsmenn að vera færir um að starfa á skrifstofu og geta unnið þar öll helstu störf sem þarf að sinna. Þeir eiga að hafa tileinkað sér sjálfstæð vinnubrögð, hafa góða innsýn í rekstur fyrirtækja og góða bókhaldsþekkingu.

Til þess að hefja nám þarf námsmaður að hafa hæfni til að takast á við námið, hafa reynslu af skrifstofustörfum, eða hafi lokið námskránni Skrifstofuskóli frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins eða sambærilegu námi.

Lengd náms: 240 kennslustundir eða 160 klukkustundir.

Verð: 52.000 kr.

Einingar: Heimild er til að meta námið til allt að 5 eininga í framhaldsskóla.

Næsta námskeið fer af stað 30. janúar 2018. Skráning fer fram hér

 

Sölu- markaðs- og rekstrarnám

Sölu- markaðs- og rekstrarnám (SRM nám) er ætlað fólki í markhópi framhaldsfræðslunnar, vinnur við sölustörf eða hefur hug á að stofna til eigin reksturs. Tilgangur námsins er að veita námsmönnum tækifæri til að auka hæfni sína og bæta við sig lykilfærni á sviði sölu,- markaðs-, og rekstrarmála. Námsbrautin er unnin í samvinnu við Promennt og er styrkt af Fræðslusjóði.

Lengd náms: 410 kennslustundir eða 273 klukkustundir.

Verð: 88.000 kr.

Einingar: Heimild er til að meta námið til allt að 30 eininga í framhaldsskóla.

Næsta námskeið fer af stað 13. febrúar 2018. Skráning fer fram hér.


Tækniþjónusta - í samstarfi við NTV

Námsleiðin Tækniþjónusta kennd er í samstarfi við NTV. Námið byggir á hagnýtum viðfangsefnum tengdum tækniþjónustu við viðskiptavini og samstarfsfólk. Í náminu er áhersla lögð á að byggja upp grunnþekkingu á vélbúnaði, stýrikerfum, hugbúnaði og netkerfum og þjálfa námsmenn í að veita almenna þjónustu við uppsetningu og tengingar, greina einfaldar bilanir og bregðast við þeim. Markmið námsins er að starfsfólk í tækniþjónustu hafi þá hæfni sem þarf til að sinna skilgreindum verkefnum starfsins samkvæmt starfaprófíl. Námið samanstendur af 8 námsþáttum sem eru verkferlar i tækniþjónustu, samskipti við viðskiptavini, tæknibúnaður, netkefni, greining tæknilegra vandamála og bilana, ráðgjöf og leiðsögn, tæknilega aðstoð/viðgerðir og að lokum fara nemendur í þjálfun á vinnustað. 

Lengd náms: 210 kennslustundir eða 140 klukkustundir.

Verð: 52.000 kr.

Einingar: Heimild er til að meta námið til allt að 7 eininga í framhaldsskóla.

Skráning stendur yfir hér.


Stökkpallur

Á Stökkpalli er áhersla lögð á að byggja upp samskiptafærni, efla sjálfstraust og þjálfa námsmenn til atvinnuþátttöku í mismunandi starfsumhverfi og til áframhaldandi náms. Námsmenn vinna markvisst að eigin færniuppbyggingu með markmiðasetningu, þjálfun í samskiptum og tjáningu, auknu fjármálalæsi, skipulögðum vinnubrögðum við upplýsingaleit og aukinni hæfni til að taka þátt í námi og starfi. Markmið námsins er að auka starfshæfni námsmanna og gera þá meðvitaðri um eigin styrkleika. Námið er ætlað þeim sem horfið hafa frá námi og/eða eru án atvinnu. Tilgangur þess er að virkja þá til þátttöku í atvinnulífi eða til áframhaldandi náms, auðvelda þeim að takast á við verkefni sem þeim eru falin á vinnustað eða hjá fræðsluaðila og stuðla þannig að jákvæðu viðhorfi til vinnumarkaðar og áframhaldandi náms. Námskráin skiptist í 4 námsþætti, markmiðasetning og sjálfsefling, samskipti og samtarf, vinnuumhverfi og vinnustaðir og að lokum vettvangsnám á vinnustað.

Lengd náms: 270 kennslustundir eða 180 klukkustundir.

Verð: 58.000 kr. 

Einingar: Heimild er til að meta námið til allt að 10 eininga í framhaldsskóla.


Námskeið kennd í samvinnu við Starfsmennt

Framvegis hefur undanfarin ár kennt námskeiðin Rekspöl I og II, Starfsnám stuðningsfulltrúa grunnnám og framhaldsnám í samvinnu við Fræðslusetrið Starfsmennt sem hefur þróað námskeiðin og búið til.

Rekspölur I

Í námsleiðinni Rekspölur I er lögð áhersla á persónulega hæfni, almenna þekkingu og samspil einkalífs og starfs. Fjallað er meðal annars um vellíðan í vinnu, vistfræði, umhverfisvernd og þróunarsamvinnu Íslendinga. Í upphafi námskeiðsins er þátttakendum kennt á vefumhverfið og því er ekki þörf á sérstakri tölvukunnáttu.

Rekspölur II

Rekspölur II er sjálfstætt framhald af fyrra námskeiðinu. Uppbygging námsins er hin sama en farið er dýpra í efnið þar sem um framhaldsnámskeið er að ræða.

 

Starfsnám stuðningsfulltrúa, grunnnám og framhald

Starfsnám stuðningsfulltrúa er hagnýtt starfsnám fyrir þá sem vilja vinna með fötluðu fólki, öldruðum eða sjúkum og byggja um leið upp starfsferil á félags- og heilbrigðissviði. Námið er heildstætt starfsnám þar sem fjallað er um starfsvettvanginn og nýjungar í starfi þeirra sem vinna t.d. á heimilum, sambýlum og í íbúðakjörnum eða við sérsniðin þjónustuúrræða. Námið nýtist þeim sem eru að hefja störf eða vilja kanna starfsvettvanginn og þekkja til helstu verkþátta. Það nýtist einnig starfsfólki með langa starfsreynslu sem vill mennta sig enn frekar á þessu sviði og þróast áfram í starfi. Grunnnámið samanstendur af 24 námsþáttum og verður að taka þá alla til að ljúka náminu.

Lengd náms: Grunnnám: 162 kennslustundir eða 122 klukkustundir. Framhaldsnám: 84 kennslustundir eða 63 klukkustundir.

Verð: Grunnnám: 35.000 kr. Framhaldsnám: 18.000

Einingar: Heimild er til að meta námið til allt að 5 eininga í framhaldsskóla.

Starfsmennt veitir nánari upplýsingar um starfsnám stuðningsfulltrúa www.smennt.is.