Flokkar: Gott að vita

Námskeiðið verður byggt á “villisundi”. Það þýðir að við förum í sjóinn á stöðum á Stór-Reykjavíkursvæðinu þar sem engin eiginleg búningsaðstaða er til staðar eða heitir pottar. En

 þessi aðferð er hollari fyrir líkamann en að fara beint í hita og er mest notuð af sjósundsfólki í heiminum. Við fáum okkur heitt að drekka og hitum okkur upp saman eftir tímann með röskum göngutúr.

Á fyrirlestrinum verður farið yfir hvað þarf að vita áður en farið er í sjóinn, öryggisreglur, búnað og fleira og er þáttaka á fyrirlestrinum forsenda þess að halda áfram á námskeiðinu. Að fyrirlestri loknum hafa þátttakendur val um að koma í annan eða báða tímana í sjó. 

Hafið í huga:

  • Þátttakendur verða að geta synt 200 metra í sundlaug.
  • Mælt er með skóm/sokkum, hönskum og skærlitaðri sundhettu auk þess sem mun skemmtilegra er að hafa góð sundgleraugu og sjá lífið í sjónum.

Dagsetningar:

Fyrirlestur og kynning:  Fimmtudagur 27. apríl.

Sjósund:  Þriðjudagur 2. og fimmtudagur 4. maí.

Kl: 18:00-19:00

Lengd: 1-3 klst.

Staður: Fyrirlestur og kynning hjá Framvegis Borgartúni 20, 3.hæð. Leiðbeinandi gefur upp staðsetningar á sjósundi.

Leiðbeinandi: Erna Héðinsdóttir sem kynntist sjósundi sumarið 2017 þegar hún var að leita leiða til að minnka verki tengda vefjagigt og krónískum höfuðverk og fann hún mikinn bata í sjónum. Í upphafi notaði hún sjóinn mest sem kælimeðferð en þegar hún synti yfir Fossvog í ágúst 2018 týndi hún hjartanu í sjónum, hefur verið forfallin sjósundskona síðan og stundar sjóinn að jafnaði 3-6 sinnum í viku. Sumarið 2019 synti hún til Viðeyjar og til baka og svo yfir Önundarfjörð sumarið 2021.

Erna er kennari, markþjálfi og lýðheilsufræðingur og með diploma í jákvæðri sálfræði. Hún er einnig mikil íþróttaáhugamanneskja og æfir Crossfit og Ólympískar lyftingar. Hún hefur mikla trú á því að sjórinn sé allra meina bót og langar að kenna og kynna dásemdir hans og heilunarmátt fyrir öðru fólki.

Henni til aðstoðar á námskeiðunum eru Birna Björnsdóttir og Sigrún Þ. Geirsdóttir.

Athugið að þessi viðburður er einungis fyrir félagsfólk Sameykis.