Í heimi þar sem tæknibreytingar eru örar verður þörfin á að fólk uppfæri tölvufærni sína og tæknilæsi sífellt fyrirferðarmeiri og aðkallandi að mæta fólki á vinnumarkaði hvað varðar færniþróun á þessu sviði.

Með þetta í huga hafa Framvegis og Tækninám.is sett saman námskrána Tæknilæsi og tölvufærni: vinnuumhverfi samtímans og hefur hún nú hlotið vottun Menntamálastofnunar og bætist því í fjölbreytta flóru vottaðra námsleiða framhaldsfræðslunnar.

Að námi loknu á sá sem situr námið að hafa öðlast þekkingu og leikni sem stuðla að jákvæðu viðhorfi gagnvart tækjum og upplýsingatækni auk þess að hafa styrkt grunnþekkingu sína og færni í upplýsingatækni. Höfundar námskrárinnar líta á það sem lykilatriði að þeir sem námið sitji öðlist aukna trú á eigin getu við vinnu í stafrænu umhverfi og geti þannig haldið í við nýjungar í tækniheiminum. Auk almennrar tæknifærni og læsis tekur námskráin til stýrikerfa, skýjalausna, sjálfvirkni og gervigreindar, öryggisvitundar auk fjarvinnu og fjarnáms. Efnið er yfirgripsmikið en ætlunin er að efla markhóp framhaldsfræðslunnar á þann hátt að gera heim tækninnar aðgengilegri.

Námskráin er á 2. þrepi hæfniramma um íslenskt menntakefi, 45 klst. löng og skiptist í sex námsþætti.

Krækja á námslýsingu á heimasíðu Framvegis Námskrár | Framvegis