Flokkur: Stök námskeið

Námskeið fyrir náms- og starfsráðgjafa í framhaldsskólum í samstarfi við  Félag náms- og starfsráðgjafa.

Námskeiðið er styrkt af samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldsskólakennara (SEF). 

Á yfirstandandi skólaári hafa nemendur staðið frammi fyrir margvíslegum áskorunum. Áður óþekktir erfiðleikar hafa skotið upp kollinum og þeir sem áður glímdu við persónulegar áskoranir hafa margir átt erfitt skólaár og því mikilvægt að geta mætt nemendum á þeim þeirra stað hverju sinni. Það er því mikilvægt fyrir náms- og starfsráðgjafa að geta unnið með ráðþega að vellíðan, styrk, von og eflingu seiglu svo eitthvað sé nefnt jafnframt því sem hugað er að námi og námstækni.

Námskeiðið verður í formi fyrirlestra, umræðna og verkefna og taka þátttakendur VIA-styrkleikapróf. Þátttakendur fá aukna þekkingu á hagnýtum leiðum til að auka vellíðan, efla styrkleika, auka vægi jákvæðra tilfinninga og bjartsýni. Meðal efnis sem tekið er fyrir á námskeiðinu eru jákvæð sálfræði, hvernig fólk þekkir styrkleika sína, mælingar á hamingju, núvitund, flæði og jákvæðar æfingar.

Markmið námskeiðsins er að þátttakendur:

  • Læri aðferðir sem aðstoða ráðþega við að finna styrkleika sína og efla þá
  • Fái innsýn í eigin styrkleika sem eykur hæfni til að aðstoða ráðþega
  • Fái aukna þekkingu á hagnýtum aðferðum um hvernig hægt sé að auka vellíðan og styrkja ráðþega í að skapa sér umhverfi þar sem hæfileikar hans ná að blómstra
  • Kynnist rannsóknum á velferð einstaklinga og hvernig hægt er að auka hana

 

Tímasetning

Föstudagur 4. júní kl. 8:30-15:00

 

Staðsetning

Á netinu - þangað til annað kemur í ljós! 

 

Leiðbeinandi

Ingrid Kuhlam, MSc í hagnýtri jákvæðri sálfræði, ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun ehf. 

 

Skráning og verð 

Þar sem um styrk frá SEF (Samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldsskólakennara) er að ræða er námskeiðið náms- og starfsráðgjöfum í framhaldsskólum að kostnaðarlausu en kostar aðra 24.000 krónur. Þeir sem greiða fyrir námskeiðið gefa upp kennitölu greiðanda í skráningarferlinu. 

Náms- og starfsráðgjafar í framhaldsskólum eru í forgangi fyrir pláss á námskeiðið og er því skráð í tvo hópa. Annars vegar þá sem starfa í framhaldsskólum og hins vegar þá sem starfa ekki í framhaldsskóla, vinsamlega athugið að skrá ykkur í réttan hóp.

Í ljósi breytilegra fjöldatakmarkanna er í skráningarferlinu beðið um að merkja við hvort þú óskir eftir að vera á staðnum eða á netinu, svona ef til þess kæmi að við getum boðið upp á námskeiðið í húsi. 

Nánari upplýsingar veitir Helga Tryggva hjá Framvegis, helga@framvegis.is eða í síma 581 1900

Heiti námskeiðs Dags Dagar Tími Staðsetning Verð Skráning